• Antonin Scalia flytur fyrirlestur 18. október 2008
    Fyrirlestur
    ANTONIN SCALIA dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna flytur fyrirlestur á vegum lagadeildar Háskóla Íslands og Hæstaréttar Íslands í Hátíðarsal HÍ, laugardaginn 18. október 2008, kl. 16.00. Fyrirlesturinn er liður í ráðstefnunni: „Lögfræði og laganám í aldarspegli" sem lagadeild Háskóla Íslands efnir til í tilefni af 100 ára afmæli laganáms á Íslandi. Antonin Scalia er fæddur 1936 og hefur verið dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna frá 1986. Hann var tilnefndur til setu í réttinum af Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkja­forseta. Scalia starfaði áður meðal annars sem dómari í áfrýjunarrétti og prófessor í lögum. Scalia er þekktur fyrir að aðhyllast svokallaða texta- og upprunahyggju í lögskýringum. Hefur hann sett fram við­horf sín um þessi efni bæði í ræðu og riti, þ.á m. í dómum sínum. Hann hefur vakið eftirtekt fyrir að skrifa beittan texta og fyrir að eiga auðvelt með að tjá lögfræðilega hugsun sína á einfaldan og eftirminnilegan hátt. Leggur hann áherslu á að við lögskýringar, sérstaklega á ákvæðum stjórnarskrár Bandaríkjanna, skuli einkum hugað að textanum. Haldi menn því fram að brotin séu á þeim mannréttindi verði þeir að finna stoð fyrir því að um sé að ræða réttindi sem þeir njóti samkvæmt texta réttindakafla stjórnarskrárinnar (Bill of Rights) eða í viðaukum. Í því sambandi telur hann að leita eigi að upprunalegri merkingu textans, þ.e. þeirri merkingu sem hann hafði þegar stjórnarskrárákvæðið öðlaðist gildi. Þegar leysa þarf úr álitamálum um merkingu texta stjórnarskrár telur hann einnig skipta máli að athuga lagalegar og félagslegar hefðir í Bandaríkjunum. Hafi menn ekki sögulega notið tiltekinna réttinda verði ekki fallist á kröfur um viðurkenningu þeirra. Vilji menn veita þess háttar réttindum vernd þurfi að breyta stjórnarskránni eða auka við hana. Scalia hefur þannig t.d. hafnað því að stjórnarskráin setji fylkjum Bandaríkjanna vissar hömlur við því að banna fóstur­eyðingar, eins og lagt var til grundvallar í frægum