• Fimm nýir forsetar fræðasviða Háskóla Íslands
    Fræðasvið
    Deildarforsetar
    Rektorar
    Viðburðir
    Fimm nýir forsetar fræðasviða Háskóla Íslands, 9. september 2008. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tilkynnti hverjir hafa verið valdir til að gegna starfi forseta fimm nýrra fræðasviða við Háskóla Íslands. Forseti Hugvísindasviðs verður Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, forseti menntavísindasviðs verður Jón Torfi Jónasson, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs verður Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor jarðvísindum við háskólann í Bristol á Englandi, forseti félagsvísindasviðs verður Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og forseti heilbrigðisvísindasviðs verður Sigurður Guðmundsson landlæknir. Háskóli Íslands setti sér það langtímamarkmið með samþykkt nýrrar stefnu árið 2006 að koma skólanum í fremstu röð á heimsvísu. Meginstef þeirrar stefnu er þríþætt: Framúrskarandi kennsla, rannsóknir og stjórnun og stoðþjónusta. Háskólinn hefur gert víðtækar breytingar á stjórnskipulagi sínu til að styðja við þetta markmið, en kjarni nýja stjórnskipulagsins er skipan Háskólans í fimm ný fræðasvið. Fyrsta verkefni nýrra forseta verður að stýra uppbyggingu fræðasviðanna og að festa þau í sessi. Þeir starfa í umboði rektors og eru yfirmenn og akademískir leiðtogar fræðasviðanna og stjórna daglegri starfsemi þeirra. Í því felst m.a. fagleg uppbygging 25 deilda og endurskipulagning og efling stjórnsýslu og stoðþjónustu. Við ráðningu nýju forsetanna var gerð krafa um prófessorshæfi, leiðtogahæfileika og metnaðarfulla og skýra framtíðarsýn, ríka samskiptahæfni auk víðtækrar reynslu af stjórnun og stefnumótun.