• Fyrirlestur lögmanns Færeyja 14.10.2009
    Fyrirlestrar
    Kaj Leo Holm Johannesen, lögmaður Færeyja, flutti erindi þann 14. október 2009 í Hátíðasal sem hann kallaði: „The Faroes in a globalized world - opportunities and challenges“ en þar fjallaði hann um tækifæri og áskoranir Færeyinga í alþjóðavæddum heimi. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, flutti upphafsorð og stýrði fjörugum umræðum. Fundarmenn voru einkum áhugasamir um viðbrögð Færeyinga við þeim efnahagslegu erfiðleikum sem yfir þá dundu á níunda áratug síðustu aldar. Fundarmenn fýsti mjög að vita með hvaða hætti Íslendingar gætu lært af frændum okkar í að vinna sig út úr kreppunni. Johannesen sagði að aðstæður í þjóðfélaginu hér væru keimlíkar þeim sem voru í Færeyjum á sínum tíma. Hann lagði áherslu á að auðlindir þjóðarinnar hefðu komið Færeyingum aftur á lappirnar. Útflutningur á fiski hefði þar skipt höfuðmáli og það sama væri uppi á teningnum hér á landi. Hagstætt verð á fiskmörkuðum hefði hleypt lífi í efnahagslífið og endurreist það á skömmum tíma í Færeyjum. Í dag væri ferðaþjónusta enn fremur í töluverðum vexti á eyjunum og færði hún Færeyingum auknar gjaldeyristekjur. Nú væru tvö af þeim sjö þúsund Færeyingum sem flutt hefðu í burtu í kreppunni snúin aftur á eyjarnar og mikil og almenn bjartsýni væri ríkjandi. Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyinga, var hér á landi í opinberri heimsókn í boði forsætisráðherra.