• Brjóstmynd af Gylfa Þ. Gíslasyni
    Munir, gögn
    Höggmynd
    Gylfi Þ. Gíslason – brjóstmynd afhjúpuð – 27.12.2010 – Brjóstmynd af Gylfa Þ. Gíslasyni, fyrrverandi prófessor og menntamálaráðherra, var afhjúpuð við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands 27. desember 2010. Gylfi var fæddur 1917 og lést árið 2004. Hann var kennari við skólann í samtals 40 ár og skiptist akademískur ferill hans í tvö tímabil. Fyrra tímabilið hófst árið 1941 er hann var skipaður dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Árið 1946 var hann skipaður prófessor í laga- og viðskiptadeild og gegndi því starfi til ársins 1966. Hann sat á Alþingi 1946-1978 og var ráðherra mennta-, iðnaðar- og viðskiptamála á árunum 1956-1971. Eftir að Gylfi lét af störfum sem ráðherra tók hann aftur við prófessorsstarfi við viðskiptadeild og gegndi því þar hann lauk farsælli starfsævi fyrir aldurs sakir árið 1987. Þá var Gylfi kjörinn heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 1971, en heiðursdoktorsnafnbót er æðsta viðurkenning sem háskóli getur veitt. Synir Gylfa, þeir Þorsteinn Gylfason heitinn og Þorvaldur Gylfason, hafa báðir fetað í fótspor föður síns og gegnt starfi prófessors við háskólann. Gylfa var margt fleira til lista lagt og samdi hann m.a. fjölmörg lög sem notið hafa almannahylli og er „Ég leitaði blárra blóma,“ við ljóð Tómasar Guðmundssonar líklega þekktast þeirra. Langafabarn Gylfa, Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson, afhjúpaði brjóstmyndina, en hana gerði Erlingur Jónsson myndhöggvari. Erlingur hefur um árabil búið í Noregi þar sem hann hefur m.a. kennt og starfað með þekktustu myndhöggvurum þar í landi. Eftir hann liggja m.a. fjölmargar brjóst- og lágmyndir af þekktum Íslendingum og Norðmönnum. Það voru þeir Árni Gunnarsson, Ásgeir Jóhannesson og Óttar Yngvason sem færðu Háskóla Íslands brjóstmyndina að gjöf og hefur henni verið fyrir komið fyrir framan Hátíðasal í Aðalbyggingu.