• Undirirtun samstarfssamnings HÍ og HTÍ 6.1.2011
    Undirritun samninga
    Samstafssamningur: HÍ og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands Hinn 6. janúar 2011 undirrituðu Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands og Guðrún Gísladóttir, framkvæmdastjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, samning til að efla farsælt samstarf beggja, sem felst í að nýta sem best sérþekkingu, kunnáttu, efnivið og aðstöðu sem aðilarnir búa yfir. Haustið 2010 hófst tveggja ára þverfræðilegt meistaranám í talmeinafræði við Háskóla Íslands. Við undirbúning þess var helst litið til sambærilegs náms í háskólum erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Kanada og í Evrópu. Háskóli Íslands undirbjó og hóf meistaranám í talmeinafræði í góðri samvinnu við Heyrnar- og talmeinastöðina, Landspítalann og fleiri. Samningur Háskólans og Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar er mikilvægur liður í kennslu, rannsóknum og þjálfun á þessu sviði. Sérfræðingar Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar, læknar og talmeinafræðingar, munu koma að kennslu í talmeinafræðum. Starfsþjálfun tengd námi í talmeinafræðum mun að miklu leyti fara fram á Heyrnar- og talmeinastöðinni. Þá munu HÍ og HTÍ vinna að sameiginlegri stefnumótun um vísindi og rannsóknastörf sem tengjast markmiðum samningsins, með það í huga að efla akademískt rannsókna- og vísindastarf og styrkja þjónustuhlutverk HTÍ og sérstaklega verður tekið mið af vísinda- og menntastefnu HÍ í þágu rannsóknafrelsis. Af faglegum ástæðum er mjög brýnt að nám í talmeinafræði fari fram á Íslandi. Íslenskir talmeinafræðingar þurfa að þekkja íslenska hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, beygingafræði og setningafræði mjög vel og sömuleiðis máltöku íslenskra barna.