• Doktorsvörn - María J. Gunnarsdóttir - Askja
    Doktorsvarnir
    Umhverfis- og byggingarverkfræðideild
    Doktorsvörn í umhverfis- og auðlindafræði – María J. Gunnarsdóttir – 30. maí 2012 María J. Gunnarsdóttir, byggingartæknifræðingur og umhverfisfræðingur, varði doktorsritgerð sína „Öryggi neysluvatns: Reynsla af innra eftirliti vatnsveitna og áhættuþættir mengunar“ við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands 30. maí 2012. Bjarni Bessason, prófessor við deildina, stýrði athöfninni í sal 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi háskólans. Andmælendur voru Steve Hrudey, prófessor emeritus við Háskólann í Alberta í Kanada, og José Manuel Pereira Vieira, prófessor við Háskólann í Minho Largo do Paço í Portúgal. Leiðbeinandi var Sigurður M. Garðarsson, prófessor og deildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands, en auk hans sátu í doktorsnefndinni Jamie Bartram, prófessor og forstöðumaður Water Institute við Háskólann í North Carolina í Chapel Hill í Bandaríkjunum, Hrund Ó. Andradóttir, dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, og Gunnar St. Jónsson, fagstjóri hjá Umhverfisstofnun. Ritgerðin fjallaði um hreint drykkjarvatn en nægur aðgangur að því er ein af undirstöðum velferðar í hverju samfélagi. Markmið rannsóknarinnar var m.a. að meta áhrif íslenskrar matvælalöggjafar frá árinu 1995, þar sem neysluvatn er flokkað sem matvæli, á vatnsveitur og hvort þeirra áhrifa gætir í gæðum vatnsins og heilsufari íbúa. Niðurstöðurnar sýna tölfræðilega marktækan mun bæði á betra neysluvatni og bættri heilsu íbúa þar sem vatnsveitur hafa sett upp innra eftirlit. Rannsóknin leiddi einnig í ljós ávinning af innra eftirliti við rekstur vatnsveitna, hvað þarf að vera til staðar til að það virki vel og hverjar hindranirnar eru. Verkefnið var unnið við Háskóla Íslands og var styrkt af Umhverfis- og auðlindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur, Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, og Þróunarsamvinnustofnun.