• Samningar – undirritun o.fl.
    Alþjóðasamskipti
    Samstarfssamningur – Kaupmannahafnarháskóli – Lagadeild – undirritun – 3.2.2012 – Lagadeild Háskóla Íslands og Lagadeild Kaupmannahafnarháskóla undirrituðu samning um sameiginlega doktorsgráðu í lögfræði þann 3. febrúar 2012. Með samningnum er gert ráð fyrir að deildirnar standi saman að þriggja ára doktorsnámi á ensku fyrir framúrskarandi lögfræðinga sem hafa áhuga á akademískum störfum. Skipuð verður sérstök verkefnisstjórn fyrir námið með fulltrúum beggja deilda. Hún mun hittast árlega og ákveða hversu marga doktorsnema hægt er að taka inn árið eftir með tilliti til fjárhags og rannsóknaraðstöðu. Hún auglýsir jafnframt lausar stöður doktorsnema en samskipti við umsækjendur verða í höndum fulltrúa á vegum Kaupmannahafnarháskóla. Gert er ráð fyrir að doktorsnemarnir sinni rannsóknum í tvö ár af námstímanum við annan háskólann og eitt ár við hinn að öllu jöfnu. Um er að ræða tímamót í lagakennslu á Íslandi og viðurkenningu á þeim góða árangri sem náðst hefur í starfi Lagadeildar Háskóla Íslands á undanförnum árum og áratugum. Lagadeild Kaupmannahafnarháskóla er ein fremsta lagadeild á Norðurlöndum og skapar samningurinn mikilvæg tækifæri til náins samstarfs lagadeildanna á næstu misserum. Gert er ráð fyrir að fyrstu nemendurnir verði teknir inn í námið skólaárið 2012–2013. Sendinefnd frá Lagadeild Kaupmannahafnarháskóla kom hingað til lands til þess að staðfesta samninginn og Henrik Dam, forseti deildarinnar, undirritaði hann fyrir hönd skólans. Fyrir hönd Háskóla Íslands rituðu Róbert Spanó, forseti Lagadeildar, Ólafur Þ. Harðarson, forseti Félagsvísindasviðs, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, undir samninginn. „Samningurinn er liður í þeirri stefnu Lagadeildar að efla tengsl hennar og samstarf á alþjóðavettvangi samhliða því að styrkja innviði hennar með öflugu doktorsnámi,“ sagði Róbert Spanó, prófessor og forseti Lagadeildar, meðal annars við undirritunina.