• Samningar – undirritun o.fl.
    Samstarf um hvalarannsóknir – Vísindamenn við Háskóla Íslands og forsvarsmenn IFAW-samtakanna kynntu í ágústmánuði 2012 sex vikna samstarf um hvalarannsóknir við Ísland og milli Íslands og Grænlands. Þá afhentu Rögnvaldur Ólafsson, forstöðumaður Stofnunar rannsóknarsetra Háskóla Íslands, og Marianne Rasmussen, hvalasérfræðingur við Háskóla Íslands, Robbie Marsland, yfirmanni IFAW, svokallað eyra til neðansjávarupptöku á hljóðum í steypireyði. Þessum sérstaka tæknibúnaði var komið fyrir vestur af Ísafirði í nokkrar vikur til að nema hljóð dýranna og rannsaka þau. Einnig voru stundaðar rannsóknir á hegðun hrefnu í Faxaflóa og hvort hvalaskoðun hafi haft einhver áhrif á hegðun dýranna. Sú rannsókn er hluti rannsóknarverkefnis sem hefur verið unnið í samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtæki og sveitarfélagið Garð. Þaðan hefur verið siglt til að kanna hegðun dýranna ásamt því sem þau hafa verið skoðuð ofan af Garðskagavita. Rannsóknarskúta IFAW-samtakanna, Söngur hvalanna, var notuð til rannsóknanna. Hún er sérhönnuð til rannsókna á hvölum. Um borð eru fullkomnustu tæki sem völ er á til neðansjávarhljóðrannsókna. Einnig er sérstök myndtækni nýtt til að skoða hegðun dýranna. Þetta var í þriðja sinn sem rannsóknarskútan kemur til Íslands og gafst því einnig tækifæri til að fylgja eftir fyrri rannsóknum IFAW við landið. Íslenskir vísindamenn og námsmenn hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessum hafrannsóknum. Auk þess var skútan opin almenningi þegar hún kom til hafnar.