• Haraldur Bernharðsson hlaut verðlaun Dags Strömbäcks 6. nóvember 2012 – Haraldur Bernharðsson, dósent í miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, hlaut verðlaun Dags Strömbäcks fyrir framúrskarandi rannsóknir á íslenskri og gotneskri málsögu og norrænum miðaldahandritum. Konunglega Gústavs Adolfs akademían í Uppsölum í Svíþjóð veitir verðlaunin og tók Haraldur við þeim við hátíðlega athöfn í Uppsölum þann 6. nóvember 2012. Haraldur Bernharðsson (f. 1968) lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands árið 1991 og MA-prófi í íslenskri málfræði frá sama skóla árið 1995. Hann lauk enn fremur MA-prófi í almennum málvísindum frá Cornell-háskóla í Íþöku í Bandaríkjunum árið 1998 og doktorsprófi frá sama skóla árið 2001. Haraldur hefur verið styrkþegi við Hugvísindastofnun Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hefur setið í Íslenskri málnefnd síðan 2006. Hann hefur ritstýrt tímaritinu Íslenskt mál og almenn málfræði ásamt Höskuldi Þráinssyni síðan 2006. Í júní 2012 var Haraldur ráðinn dósent í miðaldafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Haraldur fæst einkum við rannsóknir á íslenskri málsögu og vinnur meðal annars að rannsókn á breytileika í íslensku máli á fjórtándu öld, ásamt fræðilegri rafrænni útgáfu á eddukvæðum eftir Konungsbók og öðrum helstu miðaldahandritum. Haraldur hefur átt mikinn þátt í uppbyggingu tveggja alþjóðlegra meistaranámsbrauta í miðaldafræði við Hugvísindasvið, annars vegar námsbrautinni Medieval Icelandic Studies og hins vegar Viking and Medieval Norse Studies, en að þeirri síðarnefndu standa Óslóarháskóli, Árósaháskóli, Kaupmannahafnarháskóli og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, auk Háskóla Íslands. Námsbrautirnar hafa notið vaxandi vinsælda og í haust hófu á þriðja tug erlendra nemenda nám við þær, m.a. nemendur frá Brasilíu, Bandaríkjunum, Ísrael, Kanada og Þýskalandi. Verðlaunum Dags Strömbäcks var komið á fót árið 1960 og eru veitt þeim sem unnið hafa ötullega að rannsóknum í norrænum fræðum og þjóðfræði.