• Skipulagsverðlaun fyrir Vísindagarða Háskóla Íslands – ASK arkitektar hlutu á dögunum Skipulagsverðlaunin 2012 fyrir deiliskipulag Vísindagarða Háskóla Íslands sem rísa eiga í Vatnsmýrinni. Að verðlaununum standa Skipulagsfræðingafélag Íslands og Vistbyggðaráð með stuðningi Skipulagsstofnunar. Í umsögn dómnefndar um deiliskipulagstillögu ASK arkitekta fyrir Vísindagarða Háskóla Íslands segir m.a. að hún hafi markmið umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi þannig að hagsmunir komandi kynslóða verði ekki skertir. „Svæðið myndar samfellda heild í samspili við umhverfi og náttúru, umhverfi og vistvænum lausnum eru gerð góð skil og félagslegur þáttur vel leystur. Tillagan fellur vel að þeirri stefnu borgaryfirvalda að draga úr bílaumferð í miðborginni og auka hlut strætó og gangandi og hjólandi umferðar,“ segir enn fremur í umsögn dómnefndar. Vísindagarðar eru þyrpingar þekkingarfyrirtækja sem staðsett eru í eða við háskólaumhverfi. Markmið slíkra garða er að skapa öflugt nýsköpunar- og viðskiptaumhverfi sem skapar fyrirtækjum og viðkomandi háskólum samlegðaráhrif, báðum til hagsbóta. Vísindagarðar þekkjast víða erlendis og gegna mikilvægu hlutverki við að efla og auka framþróun þekkingarhagkerfisins. Með nýju deiliskipulagi er verið að búa í haginn fyrir uppbyggingu vísindagarða á háskólalóðinni. Nýjar stúdentaíbúðir sem verið er að reisa eru samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi. Markmið skipulagsverðlaunanna er að hvetja til umræðu um skipulagsmál og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulagsmála á Íslandi hverju sinni. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár en þetta var í fjórða sinn sem þeim var úthlutað.