• Námskeið
    Fyrirtæki og stofnanir utan HÍ
    Námskeið hjá Ríkisútvarpinu – Undanfarin ár hefur nemendum Háskóla Íslands staðið til boða að taka námskeið í útvarpsþáttagerð en áfanginn er unninn í samvinnu við RÚV. Þó nokkur aðsókn hefur verið í þennan áfanga en hann er opin öllum nemendum Háskóla Íslands. Hópur nemenda sótti í maímánuði 2013 fyrirlestra í Útvarpshúsinu við Efstaleiti þar sem nokkrir reyndustu og færustu útvarpsmenn þjóðarinnar kynntu þeim öll helstu atriði sem við koma útvarpi og útvarpsþáttagerð. Nemendur fengu m.a. að kynnast raddbeitingu, upptöku- og viðtalstækni, töfrum þess ósagða, framkomu, vali á tónlist, vönduðu málfari og fjölmiðlarannsóknum. Nemendur vinna auk þess verkefni tengd útvarpsþáttagerð og að lokum vinnur hver og einn nemandi hálfrar klukkustundar langan útvarpsþátt um efni að eigin vali sem útvarpað verður á komandi mánuðum. Páll Magnússon, útvarpsstjóri og einn fyrirlesaranna, segir komu þessara nemenda í Útvarpshúsið vera ákveðinn vorboða ár hvert og að það sé alltaf jafn ánægjulegt að taka á móti þessum hópi. Þátttakendur í námskeiðinu þökkuðu Páli og samstarfsfólki hans hjá RÚV kærlega fyrir móttökurnar sem þeim þóttu ákaflega höfðinglegar. Námskeiðinu, sem stóð í tvær vikur, lauk formlega fimmtudaginn 23. maí 2013 þegar nemendur kynntu niðurstöður hópverkefnavinnu fyrir stjórnendum og starfsfólki RÚV á stuttu málþingi í Útvarpshúsinu. Umræðuefnin voru fjölbreytt en tengdust öll starfsemi RÚV með einum eða öðrum hætti. Á meðal þess sem nemendur ræddu var framtíð Rásar 1, Rásar 2 og Rásar 3, erlent efni á dagskrá RÚV, kynning og markaðssetning á útvarpsefni, þjónusta við þá sem mæla á erlendri tungu og hvort hlustun á rásir útvarpsins væri vandamál. Miklar umræður sköpuðust þar sem bæði nemendur og starfsmenn RÚV tóku til máls.