• Samningar – undirritun o.fl.
    Fyrirtæki og stofnanir utan HÍ
    Landsvirkjun, HÍ og HR – samstarfssamningur – 23. maí 2013 – Landsvirkjun, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík undirrituðu samstarfssamning til fimm ára upp á 80 milljónir króna 23. maí 2013. Landsvirkjun leggur til 80 milljónir króna, fjörutíu til hvors skóla. Samningurinn felur í sér samstarf um uppbyggingu þekkingar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Féð rennur til tveggja fræðasviða, jarðefnafræði og raforkuverkfræði. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að starfsfólk vanti í framtíðinni á báðum þessara fræðasviða. Því sé æskilegt að háskólarnir byggi upp þekkingu á sviðunum. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, segja samninginn mikilvægan. Kristín sagði að samningurinn gerði skólanum kleift að styrkja sérstaklega jarðefnafræði, sem verði sífellt mikilvægari, ekki síst hvað varðar rannsóknir á jarðvarmavirkjunum og eldgosum, bæði eðli þeirra og hættuna af þeim. Síðan verði styrkurinn einnig notaður til að efla þekkingu innan vélaverkfræði og iðnaðarverkfræði á sviði endurnýjanlegrar orku. Ari Kristinn sagði að stærstum hluta fjármunanna yrði varið til að ráða í nýja akademíska stöðu við skólann á sviði raforkuverkfræði. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði að fyrirtækið myndi áfram setja fjármuni í orkurannsóknasjóð og að þessi nýi samningur gæti orðið til frambúðar.