• Styrkir
    Úthlutun styrkja
    Rannsóknir
    Fyrirtæki og stofnanir utan HÍ
    Þrír meistaranemar og einn doktorsnemi í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands hlutu styrki til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini frá styrktarfélaginu Göngum saman fimmtudaginn 10. október 2103. Námu styrkirnir samtals um fimm milljónum króna. Alls fengu sex manns styrki frá Göngum saman að þessu sinni, samtals að upphæð átta milljónir króna. Styrkirnir skiptust sem hér segir: • Anna Marzellíusardóttir, meistaranemi við Háskóla Íslands, hlaut einnar milljónar króna styrk til verkefnisins Leit að áhrifabreytingum í erfðaefni fjölskyldna með háa tíðni brjóstakrabbameins. • Birna Þorvaldsdóttir, meistaranemi við Háskóla Íslands, hlaut einnig eina milljón króna í styrk vegna verkefnisins Hefur telomer-lengd í blóði forspárgildi um brjóstakrabbameinsáhættu hjá BRCA2-arfberum? • Edda Sigríður Freysteinsdóttir, meistaranemi við Háskóla Íslands, hlaut jafnframt einnar milljónar króna styrk til verkefnisins Leit að brjóstakrabbameinsgenum í fjölskyldum án BRCA1/2-tengsla. • Sigríður Þóra Reynisdóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands, hlaut styrk upp á 1,8 milljónir króna til verkefnisins miRNA tjáning í BRCA2-tengdu brjóstakrabbameini. • Laufey Tryggvadóttir, klínískur prófessor við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár, hlaut 1,2 milljónir króna í styrk fyrir verkefnið Áhrif meðferðar og æxliseiginleika á horfur brjóstakrabbameinssjúklinga með BRCA2-stökkbreytingar. • Inga Reynisdóttir, forstöðumaður Rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítala, hlaut tveggja milljóna króna styrk fyrir verkefnið Leit að samrunagenum í brjóstaæxlum sem bera mögnuð litningasvæði. Styrktarfélagið Göngum saman hefur undanfarin ár styrkt grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini af miklum myndarskap en samanlagt hefur félagið úthlutað alls rúmum 40 milljónum króna frá stofnun þess fyrir sex árum. Göngum saman byggir starf sitt á þátttöku almennings. Styrkveitingin í ár byggir að mestu leyti á frjálsum framlögum einstaklinga, félaga og fyrirtækja.