• Styrkir
    Fyrirtæki og stofnanir utan HÍ
    Styrkir úr Jafnréttissjóði 24. október 2013 – úthlutun – Arndís Bergsdóttir og Sunna Kristín Símonardóttir, doktorsnemar við Háskóla Íslands, og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagvísindastofnunar Háskóla Íslands, fengu nýverið styrki úr Jafnréttissjóði til þriggja rannsókna. Styrkjunum var úthlutað á málþingi sjóðsins á kvennafrídaginn 24. október 2013 og var þetta í fimmta sinn sem fé var veitt úr sjónum. Alls bárust 14 umsóknir um styrk samtals að upphæð 37 milljónir króna en ákveðið var að veita fimm styrki í ár samtals að upphæð níu milljónir króna og komu 6,5 milljónir króna af þeirri upphæð í hlut fulltrúa Háskóla Íslands. Arndís Bergsdóttir, doktorsnemi í safnfræði, hlaut 2,25 milljóna króna styrk rannsóknarinnar „Í höftum fjarveru: Rannsókn á hlut og hlutverki kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna“. Sunna Kristín Símonardóttir, kynjafræðingur og doktorsnemi í félagsfræði, hlaut einnig 2,25 milljónir króna í styrk til verkefnisins „Hin íslenska móðir: Orðræða og upplifun“. Þá hlaut Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, tveggja milljóna króna styrk til verkefnisins „Kynbundinn launamunur háskólamenntaðra ári eftir útskrift“. Auk þeirra hlutu Andra Hjálmsdóttir, lektor við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri, styrk til rannsóknar á viðhorfum unglinga til jafnréttis og verkaskiptingar kynjanna og Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, styrk til að rannsaka áhrif atvinnuleysis á sálræna líðan karla og kvenna. Jafnréttissjóður var settur á fót í aðdraganda 30 ára afmælis kvennafrídagsins árið 2005 en honum er ætlað að stuðla að vönduðum rannsóknum á sviði jafnréttis- og kynjafræða. Lögð er áhersla á að veita fé annars vegar til rannsókna á stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði og hins vegar til rannsókna á áhrifum gildandi löggjafar á sviði jafnréttismála.