• Styrkir
    Fyrirtæki og stofnanir utan HÍ
    Nýsköpun
    Styrkir úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka – 7. nóvember 2013 – afhending – Tvö verkefni sem eiga rætur sínar að rekja til rannsókna og starfs kennara og nemenda við Háskóla Íslands hlutu styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka árið 2013. Styrkur til hvors verkefnis um sig nemur tveimur milljónum króna. Verkefnin tvö sem styrkt voru eru sprotafyrirtækið Marsýn ehf. og „Hugbúnaður til aðgreiningar síldarstofna“ og tengjast bæði rannsóknum á hafinu og verndun þess. Marsýn ehf. er sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í að byggja líkön sem lýsa flæði sjávar og öðrum þáttum eins og hita, seltu, lagskiptingu, ölduhæð og útbreiðslu fiskstofna. Markmiðið er að búa til upplýsingakerfi fyrir alla sæfarendur sem byggist á þrívíddarstraumalíkaninu CODE en þróun þess hefur tekið átta ár. Straumalíkanið byggist á rannsóknum Guðrúnar Marteinsdóttur, prófessors við Líf- og umhverfisvísindasdeild Háskóla Íslands, en auk hennar koma Kai Logemann, verkefnisstjóri hjá Líf- og umhverfisvísindastofnun, Ólafur Rögnvaldsson hjá belgingi.is og Sigurður Guðmundsson, deildarstjóri hjá Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, að sprotafyrirtækinu. Marsýn fékk einnig verðlaun í samkeppni um framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2013. Verkefnið „Hugbúnaður til aðgreiningar síldarstofna“ er afrakstur samstarfs Lísu Anne Libungan, doktorsnema við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Snæbjörns Pálsson, prófessors við sömu deild. Tilgangur verkefnisins er, eins og nafnið bendir til, að hanna hugbúnað til að aðgreina síldarstofna og meta stofnstærð þeirra. Reiknað er með að hugbúnaðurinn verði aðgengilegur öllum og hægt verður að útfæra hann fyrir fleiri mikilvæga nytjastofna. Auk þessara tveggja verkefna hlutu Valorka ehf. og Klappir ehf. einnig styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka að þessu sinni. Sjóðurinn, sem varð til fyrir fimm árum, styrkir frumkvöðlaverkefni sem leggja áherslu á endurnýjanlega orku, sjálfbæran sjávarútveg og verndun hafsvæða.