• Fyrirtæki og stofnanir utan HÍ
    Kennsla, kennarar
    Rannsóknir
    Biophilia og Björk Dagana 7. -18. janúar 2013 fór fram þverfaglegt námskeið fyrir annars árs nemendur í Listaháskóla Íslands undir nafninu Samtal. Námskeiðið fór fram í húsnæði myndlistardeildar skólans en umsjónarmaður þess var myndlistar- og tónlistarmaðurinn Curver Thoroddsen. Það er byggt á tónverkinu Biophiliu, sem var upphaflega sniðið að börnum og unglingum en þetta var fyrsta tilraunin til að nota það á háskólastigi. Í verkefninu vinna Björk Guðmundsdóttir, Reykjavíkurborg, Listaháskóli Íslands og Háskóli Íslands saman og er markmiðið með því að nemendur hittist á þverfaglegum grunni og vinni að lausn verkefna á skapandi hátt, víkki út hugmyndir sínar með samtali um forvitnileg fyrirbæri og fái innsýn í snertiflöt lista og vísinda. Í námskeiðinu taka fjölmargir starfandi listamenn og vísindamenn frá Háskóla Íslands þátt, bæði sem nemendur og kennarar. Tónverk Bjarkar Biophilia skapar umgjörð um námskeiðið þar sem gengið er út frá ákveðnum þemum í tónlistinni þar sem hvert lag hverfist um eitt fyrirbæri úr heimi vísinda eða náttúru. Biophilia er metnaðarfullt og framsækið margmiðlunarverkefni sem samanstendur af lögum Bjarkar ásamt gagnvirku smáforriti, þróuðu í samstarfi við ýmsa vísindamenn, rithöfunda, uppfinningamenn, hljóðfærasmiði og forritara. Verkefnið hverfist um alheimslögmál og þær náttúrukröfur sem tengja saman tónlist, náttúru og tækni. Umheimurinn er skoðaður bæði í sinni stærstu mynd og minnstu frumeindum. Farið er vítt og breitt um undraheim vísinda- og náttúrufyrirbæra: kristalla, landrek, veirur, möndulhalla, eldingar og rafhleðslur, þyngdarkraft og aðdráttarafl, hulduefni, gang himintunglanna og erfðaefnið (DNA). Orðið biophilia er samansett úr forngrísku orðunum bio sem þýðir líf og philia sem þýðir ástríða. Á einfaldan hátt má segja að verkefnið snúist um ást á lífinu eða ástríðu og brennandi áhuga fyrir heiminum sem við lifum í og erum partur af.