• Viðurkenningar
    Kennsla, kennarar
    Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, var formlega tekin inn í norsku vísindaakademíuna á ársfundi akademíunnar í Osló 5. maí 2014. Kristín Vala lauk námi í jarðfræði við Háskóla Íslands árið 1979 og doktorsprófi í jarðefnafræði frá Northwestern University í Bandaríkjunum árið 1984. Hún starfaði um árabil við háskólann í Bristol í Englandi, þar á meðal sem prófessor frá árinu 2001, en sneri aftur til Íslands árið 2008 og tók við starfi forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Því starfi gegndi hún til ársins 2012 og er nú prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands þar sem hún leggur áherslu á rannsóknir á sjálfbærni, auðlindanýtingu og áhrifum mannsins á umhverfi sitt. Kristín hefur á síðustu árum stýrt stórum rannsóknaverkefnum, m.a. sjálfbærniþætti stórs jarðvegsverkefnis sem nýtur styrks frá Evrópusambandinu. Enn fremur stýrir hún samfélagslegri prófun „samleiðniverkefnisins“ svokallaða, The Converge Project, þar sem lögð eru drög að ramma um sjálfbær samfélög. Þar er mikil áhersla lögð á nýtingu auðlinda og fæðuöryggi. Kristín Vala hlaut viðurkenningu hins svokallaða Balaton-hóps fyrir vinnu sína við sjálfbærni árið 2011 og árið 2013 fékk hún inngöngu í evrópsku vísindaakademíuna. Norska vísindaakademían var sett á fót fyrir rúmum 150 árum, nánar tiltekið árið 1857. Hún er sjálfstæð stofnun á öllum fræðasviðum. Aðild að akademíunni eiga bæði norskir og erlendir vísindamenn. Tveir aðrir Íslendingar eru meðlimir í akademíu Norðmanna, þeir Eyjólfur Kjalar Emilsson, prófessor í heimspeki við Oslóarháskóla, og Björn S. Stefánsson, sem starfar nú við Reykjavíkurakademíuna.