• Verðlaun
    Fyrirtæki og stofnanir utan HÍ
    Hagþenkir – Tilnefndingar til viðurkenningar – 29. janúar 2014 Tíu bækur voru tilnefndar til viðurkenningar Hagþenkis árið 2013 fyrir framúrskarandi fræðirit, kennslugögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Hagþenkir er félag höfunda fræðirita og kennslugagna og hefur í nærri 30 ár veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, kennslugögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings sem þykir hafa borið af. Sá háttur hefur verið hafður á síðustu árin að tilkynna í lok janúar hvaða tíu bækur koma greina til viðurkenningar Hagþenkis. Það er í höndum svokallaðs viðurkenningarráðs að velja tíu framúrskarandi höfunda og bækur og ein þeirra hlýtur hnossið. Viðurkenning Hagþenkis telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem höfundum fræðilegra rita fyrir skóla og almenning getur hlotnast og nemur verðlaunaupphæðin einni miljón króna. Fjórar bækur sem tengjast Háskóla Íslands og Háskólaútgáfunni voru í hópi tíu bóka sem tilnefndar voru til viðurkenningar Hagþenkis. Bækurnar sem Háskólaútgáfan gaf út eru: • Náttúruvá á Íslandi í ritstjórn þeirra Júlíusar Sólnes, Freysteins Sigmundssonar og Bjarna Bessasonar. • Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu eftir Guðnýju Hallgrímsdóttur. • Dagar vinnu og vona. Saga Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í kreppu og köldu stríði eftir Þorleif Friðriksson. Einnig var bókin Ferðamál á Íslandi tilnefnd en höfundar hennar eru Gunnar Þór Jóhannesson, lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Edward Hákon Huijbens, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála. Mál og menning gaf bókina út.