• Menntavísindasvið fær Hvatningarverðlaun ÖBÍ
    Viðurkenningar
    Menntavísindasvið
    Fyrirtæki og stofnanir utan HÍ
    Menntavísindasvið Háskóla Íslands hlaut þann 3. desember Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Hörpu í tilefni af alþjóðadegi fatlaðs fólks. Verðlaunin fékk sviðið fyrir starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun. Þetta er í áttunda sinn sem Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands eru veitt en tilgangur þeirra er að varpa ljósi á þá sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Á hátíðinni í Hörpu í gær voru veitt verðlaun í þremur flokkum: flokki einstaklinga, flokki fyrirtækja/stofana og flokki umfjallana/kynninga. Verðlaunin í flokki fyrirtækja/stofnana komu í hlut Menntavísindasviðs og tók Jóhanna Einarsdóttir, forseti sviðsins, við verðlaunum úr hendi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun hefur verið í boði á Menntavísindasviði frá árinu 2007 og á þeim tíma hafa 56 nemendur lokið náminu, en 13 nemendur leggja nú stund á það. Nemendur eru teknir inn í námið annað hvert ár en það heyrir undir Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Meginmarkmið námsins er að undirbúa nemendur til afmarkaðra starfa, til dæmis í skólum, leikskólum, félagsmiðstöðvum, bókasöfnum og á þeim vettvangi sem fatlað fólk sækir þjónustu. Um leið er tilgangurinn að veita fólki með þroskahömlun möguleika til fullgildrar samfélagsþátttöku. Námið er skipulagt í samræmi við yfirlýsta alþjóðlega stefnu hagsmunasamtaka fólks með þroskahömlun, mannréttindasáttmála sem og stefnu Háskóla Íslands.Góður árangur hefur verið af náminu og hafa um 80% þeirra nemenda sem lokið hafa námi fengið starf að því loknu. Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun hefur getið af sér mörg skemmtileg verkefni, þar á meðal kaffihúsið GÆS sem rekið var í miðborginni á vordögum 2013. Þess má geta að GÆS fékk einmitt Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands í fyrra.