• Sjóðir
    Úthlutun styrkja
    Fyrirtæki og stofnanir utan HÍ
    Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar – úthlutun – 5. febrúar 2014 – Vísindamenn og nemendur við Háskóla Íslands hlutu styrki úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til rannsóknarverkefna sem tengjast umhverfis- og orkumálum. Tuttugu og þrjú verkefni af þeim 37 sem fengu styrki tengjast Háskóla Íslands. Þetta var í sjöunda sinn sem fé var veitt úr Orkurannsóknasjóðnum og að þessu sinni var 56 miljónum króna úthlutað til margvíslegra verkefna. Úthlutað var í tveimur flokkum, A-flokki, sem eru styrkir til nemenda í meistara- eða doktorsnámi, og B-flokki, til rannsóknaverkefna vísindamanna. Að þessu sinni voru veittir samtals 19 styrkir til meistara- og doktorsnema samtals að upphæð 15,6 milljónir króna. Sjö styrkir, hver að upphæð 1,2 milljónir króna, fóru til doktorsnema, þar af fimm til nemenda Háskóla Íslands. Tólf styrkir að upphæð 600 þúsund krónur fóru til meistaranema og átta þeirra komu í hlut nemenda við Háskóla Íslands. Af veittum styrkjum í A-flokki voru sex styrkir til virkjunarmála en þrettán til rannsókna á náttúru og umhverfi. Í flokki B voru veittar 40,5 milljónir króna til 18 verkefna, sjö styrkir til orkumála og ellefu til rannsókna á náttúru og umhverfi. – Markmið Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála og veita styrki til námsmanna, rannsóknarverkefna á vegum háskóla, stofnanna, fyrirtækja og einstaklinga. Stjórnarformaður sjóðsins er Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur og fyrrum háskólarektor, en stjórn Orkurannsóknasjóðs skipa fjórir fulltrúar háskólasamfélagsins og tveir fulltrúar Landsvirkjunar. Nánari upplýsingar um sjóðinn og aðra styrkþega má sjá á heimasíðu Landsvirkjunar.