• Vísindi á mannamáli - Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir
    Fræðsla fyrir almenning
    Fyrirlestrar
    Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
    Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, vísindamaður og kennslustjóri framhaldsnáms við Læknadeild Háskóla Íslands, fjallaði um rannsóknir á fisksjúkdómum og þróun forvarna gegn sjúkdómum í fiskeldi í fimmta erindi fyrirlestraraðarinnar Vísindi á mannamáli í Háskóla Íslands þriðjudaginn 24. mars 2015. Rannsóknirnar stundaði Bjarnheiður á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Fiskeldi er í miklum vexti á heimsvísu en um helmingur fiskafurða kemur nú úr eldi. Kýlaveikibróðir er sjúkdómur sem herjar á allar tegundir í fiskeldi á Íslandi, en hann orsakast af bakteríunni Aeromonas salomonicida. Í erindinu voru kynntar rannsóknir á eðli bakteríunnar og samspili hennar við hýsil, bæði í sýkingu og við myndun ónæmisvarna. Bjarnheiður og félagar uppgötvuðu við rannsóknir sínar að Keldum áður óþekkt bakteríueitur, ensímið AsaP1, sem reyndist öflugur mótefnavaki. Með erfðatækni voru útbúin stökkbreytt óeitruð afbrigði (toxoíð) af AsaP1 ensíminu, sem gáfu samt mótefnasvar. Geni fyrir óeitraða afbrigðið var komið fyrir í bakteríunni. Þessi erfðabreytti stofn var síðan notaður til að bólusetja bleikju. Tilraunir leiddu í ljós að bóluefnið veitir öfluga vörn gegn kýlaveikibróður í laxfiskum. Erfðafræðilegar aðferðir hafa ekki áður verið notaðar til að útbúa toxoíð fyrir fiskabóluefni en bóluefni fyrir menn eru mörg byggð á slíkum prótínum. Þessar rannsóknir hafa leitt í ljós nýja þekkingu á eðli sýkilsins og samspili hans við hýsil sinn sem nýta má við þróun öflugra sjúkdómsvarna. Á Íslandi er fyrirhuguð mikil aukning í eldi laxfiska og Senegal-flúru á komandi árum. Auk þess er Ísland stærsti útflytjandi laxahrogna í heiminum. Fæðuframboð og umhverfisþættir setja fiskeldi skorður og eru afföll vegna sjúkdóma um 10%. Góðar vistvænar forvarnir gegn smitsjúkdómum eru því mjög mikilvægar fyrir uppgang atvinnuvegarins.