• Ristilskoðun á Háskólatorgi
    Fyrirtæki og stofnanir utan HÍ
    Sýningar
    Háskóli Íslands og Krabbameinsfélagið tóku höndum saman í október 2015 til að vekja athygli á ristilkrabbameini. Krabbameinsfélagið hefur undanfarin fimmtán ár staðið fyrir árvekni- og fjáröflunarátakinu Bleika slaufan í október þar sem áhersla er lögð á baráttu við krabbamein hjá konum. Á árinu 2015 hefur félagið lagt áherslu á fræðslu og forvarnir í tengslum við ristilkrabbamein og er Bleika slaufan lokahnykkurinn í því átaki. Til að vekja athygli á átakinu og til að auka skilning á mikilvægi forvarna gegn ristilkrabbameini hefur uppblásinn risaristill verið fluttur inn til landsins frá Þýskalandi. Honum var komið upp á Háskólatorgi þar sem hann var dagana 9. – 14. október en þar var bæði hægt að sjá og lesa sér til um hvernig krabbamein í ristli þróast. Ristilkrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið hér á landi. Árlega greinast um 135 mein í ristli og þá látast 52 einstaklingar af völdum ristilkrabbameins ár hvert, eða að meðaltali einn í hverri viku. Krabbameinsfélagið vill að skipuleg leit að ristilkrabbameini verði tekin upp hér á landi, líkt og gert er með leghálskrabbamein og brjóstakrabbamein.